Handbolti

„Ekki ná­lægt þeim leik sem mig langaði að sýna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thea Imani Sturludóttir þurfti óþarflega oft að reyna skot yfir þétta hávörn Svía í leik kvöldsins.
Thea Imani Sturludóttir þurfti óþarflega oft að reyna skot yfir þétta hávörn Svía í leik kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Thea Imani Sturludóttir átti ekki sinn besta dag þegar íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola 13 marka tap gegn Svíum í undankeppni EM í dag. Hún lítur þó á leikinn sem tækifæri til að gera betur.

„Þessar lokatölur sýna ekki hvernig við spiluðum leikinn og við hefðum viljað halda þeim miklu nær okkur út allan leikinn. Þetta er bara svekkjandi,“ sagði Thea í viðtali við Vísi í leikslok.

„Mér fannst við alveg ná að halda þeim á góðum stað í svona 40 mínútur. Þær eru rosalega vel drillaðar og bara flott lið þannig við þurfum bara að vanda okkur betur, sérstaklega í sókn og hvert við skilum boltanum því þær eru grimmar að refsa ef skotin eru ekki einu sinni á markið. Þær eru rosalega góðar í því.“

Thea hefur oft átt betri daga inni á handboltavellinum, en hún þurfti oft og tíðum að taka erfið skot gegn sterkri hávörn Svía þegar dómarar leiksins voru komnir með hendurnar á loft.

„Þetta var ekki nálægt þeim leik sem mig langaði að sýna hér í dag. Á þessu leveli er það bara eiginlega ekki boðlegt. Jú, þetta voru erfið færi sem ég var að fá, en þegar ég fékk betri færi þá var ég ekki að nýta þau heldur. Þannig ég skoða fyrir næsta leik hvað ég þarf að gera betur og er spennt að fá að mæta þeim aftur.“

Íslenska liðið mætir Svíum einmitt aftur næstkomandi laugardag úti í Svíþjóð og Thea segir það tækifæri til að sýna betri frammistöðu.

„Við erum að reyna að taka eins mikið og við getum út úr þessu verkefni til að bæta okkur sem lið. Þannig að þegar það kemur að því þá erm við bara klárar í mikilvæg verkefni,“ sagði Thea að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×