Hættustig á nokkrum svæðum í kringum Svartsengi var hækkað síðdegis í gær og nú hafa um átta milljónir rúmmetra á kviku safnast saman undir Svartsengi. Miðað við fyrri eldgos hafa líkur á gosi aukist þegar magnið nær átta til þrettán milljón rúmmetrum og náðust neðri mörkin þannig í dag.
„Það safnast stöðugt þarna fyrir og þetta er svipað eins og Elliðaárnar, sem er að flæða þarna inn af kviku. Þetta eru 5-6 rúmmetrar á sekúndu. Það er hálf milljón rúmmetra á sólarhring og nú er komið á það stig sem hefur brostið á með gosi upp úr þessu. Ef þetta hegðar sér eins gæti það alveg gerst núna á næstu klukkustundum en líklegt að það gerist á næstu dögum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur.
Ómögulegt sé að segja nákvæmlega til um hvenær gosið fer af stað.
„Við erum bara undir þetta búin og svo tökum við því sem höndum ber.“
Hann varar enn við því að líklegt sé að lítill sem enginn fyrirvari verði á eldgosinu, enda greið leið fyrir kvikuna upp á yfirborðið. Lítil skjálftavirkni hefur mælst í kvikuganginum undanfarna daga.
„Sem að segir okkur ekkert sérstaklega mikið. Það hefur verið frekar hvasst og þá er næmni kerfisins ekki jafn mikil. Það er erfitt að draga miklar ályktanir en enn sem komið er segir ekkert að þetta sé að byrja. Það er líklegt að það gerist á næstu sólarhringum.“