Jóhann Helgi Hlöðversson er ásamt konu sinni, Margréti Ormsdóttur í siglingu um Afríku og Asíu. Hjónin, sem eru eigendur Hotel Vatnsholt og veitingastaðarins Blind Raven Restaurant létu í sér heyra á dögunum þegar bráðsmitandi magapest geisaði upp meðal farþega.
Í Facebook færslu sem Jóhann birti í gær lýsir hann bágbornum smitvörnum á veitingastað skipsins. Allir gestir fengju að skammta á diskana sína sjálfir á hlaðborðinu þrátt fyrir að pestin væri nú þegar búin að gera vart við sig.

Hann segir Margréti hafa gengið fram á yfirmann veitingastaðanna og sagt honum að það yrði að breyta strax um aðferðir í mötuneytinu vegna pestarinnar, en fengið það svar að ástandið væri ekki á neyðarstigi og því nóg að skipta um áhöld á korters fresti, sem henni þætti þó bagalegt.
Og daginn eftir hafi hún veikst. En í kjölfarið hefðu starfsmenn veitingastaðarins betrumbætt smitvarnir til muna.
„Þegar ég skottaðist upp í matsal í hádeginu var allt orðið eins og Magga sagði að það ætti að vera. Nú fékk engin að snerta neitt! Það var búið að girða af vatns- og djúsvélarnar ásamt kaffinu. Þar stóð þjónn sem tók pantanir. Eins var með hlaðborðið, þar setti þjónn á diskinn það sem hver vildi,“ skrifar Jóhann í Facebook færslu.

„Við höfum reynslu í sóttvörnum á veitingastað þar sem við tókum þátt í því, ásamt öðrum hótelum, í Covid-faraldrinum að bjóða upp á neyðaraðstoð,“ segir Jóhann í samtali við Vísi.
„Jú það varð faraldur en ég held að hann sé í rénum,“ segir Jóhann sem telur þó að ástandið um borð sé að batna. „Samt er skipstjórinn enn mjög um hugsað um velferð allra um borð og ítrekar reglulega í hátalarakerfi skipsins mikilvægi þess að snerta ekki handriðin í skipinu.