Þetta segir Guðmundur í samtali við fréttastofu en í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um að rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson og uppsjávarskipið Polar Ammassak væru á leið til svæðis sem kallað er Rósagarðurinn til að fylgja eftir ábendingum skipstjóranna þriggja.
„Það er lítið, engin stór loðnuganga þarna á ferðinni. Þó það sé ekki komin niðurstaða úr þessu eru engar vísbendingar um að þetta sé eitthvað stórt sem breytir eitthvað miklu. Það er vissulega loðna þarna á ferðinni en ekki mikið,“ segir Guðmundur.
Skipin hafa bæði siglt eftir leitarlínum sem Hafrannsóknarstofnun hafði teiknað upp og er áhöfn Bjarna búin að sigla sína línu án þess að rekast á stóra torfu. Polar Ammassak heldur áfram til morguns að vinna sig norður á bóginn eftir öðrum línum. Guðmundur á ekki von á neinum stórum fréttum frá þeirri siglingu.
„Stórar loðnugöngur, ef þetta væri það, værum við búin að sjá það,“ segir Guðmundur.