Flest mál á ríkisstjórnarfundi í morgun sneru að Grindavík. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir fjölda aðgerða í mótun sem miði að því að koma Grindvíkingum í skjól.
„Við ætlum að leysa Grindvíka undan skuldbindingum sínum í íbúðarhúsnæði í Grindavík. Við erum enn að skoða mögulegar leiðir en það er enn óbreytt áætlun að því leiti að við væntum þess að frumvarp sem taki á málinu verði kynnt í byrjun febrúar og ég hef trú á því að það gangi eftir,“ segir Katrín.
Enn sé ekki búið að ákveða, hvort förgunargjald sem húseiganda ber að greiða þegar altjón verður á húsnæði, verði afnumið.
„Það liggur ekki fyrir endanlega niðurstaða varðandi það en grundvöllur okkar tillagna er að tryggja jafnræði meðal íbúa í Grindavík,“ segir Katrín.
Fjöldi frumvarpa og aðgerða í vinnslu
Nú þegar eru sjö frumvörp sem snerta Grindavík komin fram og fleiri eru í bígerð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar-og viðskiptaráðherra er meðal þeirra sem undirbýr nokkur slík. Hún segir afar mikilvægt að auka framboð á húsnæði svo verðbólga fari ekki á skrið.
„Við erum með átta aðgerðir sem eiga að auka framboð á íbúðum hér á höfuðborgarsvæðinu. Við erum með nokkur frumvörp í smíðum, eitt miðar að því að endurskilgreina þær íbúðir sem hafa verið skráðar sem íbúðahúsnæði en eru svo í raun og veru notaðar í atvinnuskyni. Í öðru lagi erum við að fara að auka eftirlit með þessum markaði og koma fram með skattalega hvata svo fleiri íbúðir komi í umferð og sölu,“ segir Lilja.
Unnið að lausn fyrir ferðaþjónustuna
Þá sé unnið að lausnum fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Bláa lónið sé meðal fyrirtækja sem þurfi að grípa vegna ástandsins.
„Bláa lónið er mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn þannig að lokun þar getur haft áhrif á fjölda þeirra sem heimsækja landið. . Auðvitað erum við alltaf að hugsa um öryggi fólks en líka að reyna að vinna með þessa áhættu á ábyrgan hátt,“ segir Lilja að lokum.