RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, segir að búið sé að ná tökum á eldinum í olíuvinnslustöðinni og einn olíutankur logi enn. Enginn er sagður hafa slasast eða dáið í eldinum og ekki hefur verið gefið upp hvernig eldurinn kviknaði.
Í frétt BBC er þó vitnað í héraðsmiðla í Rússlandi þar sem haft er eftir vitnum að drónar hafi sést á svæðinu. Einnig hafi heyrst í þeim í kjölfar háværra sprenginga.
Yaroslav Trofimov, blaðamaður Wall Street Journal, segir fregnir hafa borist af frekari drónaárásum í Smólensk og í Orel en ekkert myndefni hafi borist þaðan. Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir þrjá dróna hafa verið skotna niður yfir Smolensk.
There were also reports of drone attacks in Smolensk and Orel, but no footage of damage.
— Yaroslav Trofimov (@yarotrof) January 21, 2024
Rússar hafa í vetur gert umfangsmiklar árásir á orkuinnviði Úkraínu, eins og þeir gerðu síðasta vetur. Ráðamenn í Úkraínu hafa að þessu sinni heitið því að svara þessum árásum.
Úkraínumenn segja Rússa hafa komið nánast öllum sínum loftvarnarkerfum fyrir í austurhluta Úkraínu og því séu skotmörk í Rússlandi viðkvæm fyrir árásum. Þá hafa Úkraínumenn unnið að þróun eigin langdrægra sjálfsprengidróna á undanförnum mánuðum.
Á aðfaranótt föstudags varð stór sprenging í olíugeymslustöð í vesturhluta Rússlands, sem olli stærðarinnar báli. Fjórir stórir olíutankar stóðu í ljósum logum. Einnig varð sprenging í byssupúðursverksmiðju í Tambov, um sex hundruð kílómetra suður af Moskvu, á föstudaginn.