Körfubolti

Giannis og Lillard í stuði í sigri Milwaukee

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo og Damian Lillard voru potturinn og pannan í sóknarleik Milwaukee Bucks í nótt, eins og svo oft áður.
Giannis Antetokounmpo og Damian Lillard voru potturinn og pannan í sóknarleik Milwaukee Bucks í nótt, eins og svo oft áður. Gregory Shamus/Getty Images

Milwaukee Bucks lenti óvænt í nokkrum vandræðum með slakasta lið NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt, Detroit Pistons. Damian Lillard og Giannis Antetokounmpo sáu þó til þess að liðið vann sex stiga sigur, 135-141.

Jafnræði ríkti með liðunum stærstan hluta leiksins, en fimm sinnum var jafnt og fimm sinnum skiptust liðin á forystunni.

Það voru svo heimamenn í Detroit Pistons sem leiddu með fjórum stigum að loknum fyrsta leikhluta, 38-34, en gestirnir höfðu þó nauma forystu þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 67-70.

Áfram var nokkuð jafnt á öllum tölum í síðari hálfleik og varð munurinn á liðunum aldrei meiri en ellefu stig. Gestirnir frá Milwaukee juku forskot sitt lítillega í þriðja leikhluta áður en þeir héldu út í lokaleikhlutanum og unnu að lokum sex stiga sigur 135-141.

Damian Lillard var potturinn og pannan í sóknarleik Milwaukee-liðsins með 45 stig og ellefu stoðsendingar, ásamt því að taka sex fráköst. Giannis Antetokounmpo kom þar á eftir með 31 stig og tíu fráköst. Í liði Detroit Pistons var Alec Burks atkvæðamestur með 33 stig af bekknum.

Milwaukee Bucks situr í öðru sæti Austurdeildar NBA-deildarinnar með 29 sigra og 13 töp, en Detroit Pistons situr sem fastast á botninum með fjóra sigra og heil 38 töp.

Úrslit næturinnar

Milwaukee Bucks 141-135 Detroit Pistons

San Antonio Spurs131-127 Washington Wizards

Philadelphia 76ers 97-89 Charlotte Hornets

Toronto Raptors 100-126 New York Knicks

Cleveland Cavaliers 116-95 Atlanta Hawks

Oklahoma City Thunder 102-97 Minnesota Timberwolves

Utah Jazz 126-127 Houston Rockets

Memphis Grizzlies 96-125 Chicago Bulls

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×