Körfubolti

Endur­komu­sigur Warri­ors og þre­föld tvenna Jokic

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nikola Jokic náði þrennu númer 117 á ferlinum í nótt.
Nikola Jokic náði þrennu númer 117 á ferlinum í nótt. Vísir/Getty

Klay Thompson og Steph Curry voru mennirnir á bakvið endurkomu Golden State Warriors gegn Chicago Bulls í nótt. Nikola Jokic skellti í þrefalda tvennu í heimasigri Denver Nuggets.

Golden State Warriors hafa ekki byrjað tímabilið í NBA-deildinni neitt frábærlega. Fyrir leikinn gegn Chicago Bulls í nótt var liðið með 17 sigra og 20 töp og lengi vel leit ekki út fyrir það það myndi breytast til betri vegar.

Bulls var mun betra liðið í fyrri hálfleik og leiddi 75-62 í hálfleik. Í síðari hálfleik snerist taflið hins vegar við. Curry skoraði 15 af 27 stigum sínum í leiknum í fjórða leikhluta og Warriors náðu frumkvæðinu. Þeir unnu að lokum 140-131 sigur þar sem endaði stigahæstur með 30 stig en Curry skoraði 27. Hjá Chicago var DeMar DeRozan frábær með 39 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.

Tobias Harris náði sínu hæsta stigaskori á tímabilinu þegar hann skoraði 37 stig í 112-93 sigri Philadelphia 76´ers gegn Sacramento Kings. Harris skoraði 14 stig í fyrsta leikhluta en þetta er hans hæsta stigaskor á ferlinum síðan hann setti 39 stig í desember 2018 þegar hann lék með Los Angeles Lakers.

Victor Wembanyama skoraði 26 stig og tók 11 fráköst þegar San Antonio Spurs vann risasigur á Charlotte Hornets í uppgjöri tveggja af slakari liðum deildarinnar. Wembanyama var valinn fyrstur í nýliðavalinu í sumar og er búist við miklu af honum í framtíðinni.

Nikola Jokic skoraði 27 stig, tók 10 fráköst og gaf 14 stoðsendingar í sigri Denver Nuggets á New Orleans Pelicans. Meistararnir frá því í fyrra eru í þriðja sæti Vesturdeildarinnar en þetta var tólfta þrefalda tvenna Jokic á tímabilinu og tíunda þrenna hans gegn liði Pelicans á ferlinum.

Úrslit NBA í nótt:

Detroit Pistons - Houston Rockets 110-112

Atlanta Hawks - Indiana Pacers 109-126

Philadelphia 76´ers - Sacramento Kings 112-93

San Antonio Spurs - Charlotte Hornets 135-99

Minnesota Timberwolves - Portland Trail Blazers 116-93

Memphis Grizzlies - Los Angeles Clippers 119-128

Chicago Bulls - Golden State Warriors 131-140

Miami Heat - Orlando Magic 99-96

Utah Jazz - Toronto Raptors 145-113

Denver Nuggets - New Orleans Pelicans 125-113

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×