Körfubolti

Draymond Green snýr aftur til æfinga í dag

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Draymond Green var dæmdur í ótímabundið bann frá æfingum og keppni vegna ítrekaðra ofbeldisbrota.
Draymond Green var dæmdur í ótímabundið bann frá æfingum og keppni vegna ítrekaðra ofbeldisbrota. David Berding/Getty Images

Draymond Green mun snúa aftur til æfinga með Golden State Warriors í dag eftir að hafa tekið út bann vegna sífelldra ofbeldisbrota.

Draymond var settur í bann af NBA deildinni þann 13. desember síðastliðinn eftir að hafa slegið til andstæðings síns Jusuf Nurkic og hefur misst af síðustu 12 leikjum Golden State Warriors. Bann Draymond átti sér enga hliðstæðu þar sem það var ótímabundið og ekki mælt í dögum eða leikjum. 

Adrian Wojnarowksi greindi frá því á X-síðu sinni að Draymond myndi snúa aftur til æfinga í dag og reikna mætti með honum á vellinum innan skamms. 

Draymond mun hafa gengist undir sálfræðimeðferð og reiðisstjórnunarnámskeið. Allt hefur þetta verið gert í góðu sambandi við forráðamenn Warriors og NBA deildarinnar. Hann er sagður hafa verið í litlum sem engum samskiptum við liðsfélaga sína og Steve Kerr, þjálfara liðsins, meðan á meðferðinni stóð. 

Bannið kostaði Draymond drjúgan skilding, ESPN greinir frá því að tekjutap hans vegna leikbannsins nemi um 2 milljónum dollara, um það bil 275 milljónum íslenskra króna. 

Warriors þurfa á allri hjálp að halda, meiðsli hafa plagað liðið og nú nýlegast var það leikstjórnandinn Chris Paul sem brákaði bein í hendi og þarf að gangast undir aðgerð. Þeir sitja í 10. sæti vesturhluta NBA deildarinnar með 17 sigra og 18 töp. 

NBA

Tengdar fréttir

NBA-deildin setur Draymond Green í ótímabundið bann

Körfuboltamaðurinn Draymond Green má ekki spila með Golden State Warriors á næstunni en NBA-deildin hefur sett hann í bann. Það sérstaka við bannið er að það er ekki talið í leikjum, dögum eða vikum. Green er kominn í ótímabundið bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×