Til stóð að réttarhöldin hæfust 8. janúar næstkomandi en dómari í New York féllst á umleitan verjenda árásarmannsins, Hadi Matar, um að þeim yrði frestað þannig að þeir fengju tækifæri til að kynna sér efni bókarinnar.
Hún yrði mögulega lögð fram sem sönnunargagn í málinu.
Bókin ber titilinn „Hnífur: Hugleiðingar eftir morðtilraun“ og fjallar um það þegar Matar, 26 ára íbúi New Jersey, réðist upp á svið þar sem Rushie stóð og stakk hann ítrekað.
Rushdie blindaðist á öðru auga og hlaut skaða á hendi.
Verjendur eru sagðir munu krefjast þess að fá afrit af handriti bókarinnar áður en hún kemur út en saksóknarinn í málinu segir bókina ekki munu hafa áhrif á niðurstöðu málsins.
Eins og þekkt er varði Rushdie mörgum árum í felum eftir útgáfu bókarinnar „Söngvar Satans“ árið 1988 en hann var úrskurðaður réttdræpur í kjölfarið af þáverandi leiðtoga Íran. Öfgamenn hafa ítrekað vísað til bókarinnar sem hvatans á bak við voðaverk sín.
Rushdie sagðist í samtali við BBC í fyrra vera óviss um það hvort hann vildi mæta Matar í dómsal; hluti af honum vildi vera viðstaddur og horfa í augu árásarmannsins en hluti af honum vildi hreinlega ekki verja meiri orku í málið.