Birnir Snær var lykilmaður í Íslands- og bikarmeistaraliði Víkinga í sumar. Hann skoraði tólf mörk og lagði upp átta á frábæru tímabili Víkinga. Hann var kjörinn leikmaður ársins hjá Víkingi og besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum og einnig í Stúkunni á Stöð 2 Sport.
Í lok árs fékk Birnir Snær einnig tilnefningu sem íþróttamaður Reykjavíkur árið 2023.
Sigdís Eva er uppalin hjá Víkingi og var fastamaður í liði Víkinga í sumar. Víkingur vann Lengjudeildina auk þess að verða bikarmeistari eftir að hafa unnið sigur á Blikum í úrslitaleik. Sigdís Eva var valin efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar á tímabilinu.
Sigdís Eva lék með þremur landsliðum á tímabilinu og á að baki leiki með U16, U17, U19 og U20 ára landsliðum Íslands.