Enski boltinn

Komst inn í þjálfaraherbergi Burnley og pirraði Bellamy

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmaðurinn ásamt reiðum Craig Bellamy, aðstoðarþjálfara Burnley.
Stuðningsmaðurinn ásamt reiðum Craig Bellamy, aðstoðarþjálfara Burnley.

Burnley hefur hafið rannsókn á því hvernig stuðningsmaður Everton komst inn í þjálfaraherbergi liðsins fyrir leik liðanna á laugardaginn.

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton, sneri aftur á Turf Moor þegar Everton sótti Burnley heim um helgina. Everton vann leikinn, 0-2, en þetta var fjórði sigur liðsins í röð. Dyche stýrði Burnley um árabil með góðum árangri.

Skömmu fyrir leikinn komst stuðningsmaður Everton inn í þjálfaraherbergi Burnley þar sem Vincent Kompany og félagar réðu ráðum sínum. Stuðningsmaðurinn bað Kompany um mynd áður en viðstaddir kröfðust þess að hann léti símann sinn af hendi.

Stuðningsmaðurinn birti færslu á Twitter þar sem hann lýsti ævintýri sínu á Turf Moor. Hann sagði að aðstoðarþjálfari Burnley, Craig Bellamy, hafi verið brjálaður og vísað honum út.

Burnley hefur nú ákveðið að rannsaka hvernig stuðningsmaðurinn komst inn í þjálfaraherbergið, að því er virðist óáreittur.

Lítið hefur gengið hjá Burnley í vetur en liðið er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með einungis átta stig eftir sautján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×