Fótbolti

Fyrir­liðinn bannar T-orðið í klefanum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
John McGinn fagnar markinu sem tryggði Aston Villa sigur gegn Arsenal í gær.
John McGinn fagnar markinu sem tryggði Aston Villa sigur gegn Arsenal í gær. Catherine Ivill/Getty Images

Unai Emery, þjálfari Aston Villa, og John McGinn, fyrirliði liðsins, segja það vera of snemmt að tala um titilbaráttu þrátt fyrir að liðið sé nú tveimur stigum frá toppnum eftir 1-0 sigur gegn Arsenal í gær.

Með sigrinum sá Aston Villa til þess að Arsenal mistókst að endurheimta toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar frá Liverpool og Villa situr nú í þriðja sæti deildarinnar með 35 stig eftir 16 leiki, tveimur stigum minna en Liverpool í toppsætinu og einu stigi minna en Arsenal í öðru sæti.

Aston Villa hefur komið flestum á óvart á tímabilinu með frammistöðu sinni og liðið hefur unni 11 af 16 leikjum sínum og aðeins tapað þremur. Í síðustu fjórum deildarleikjum sínum hefur liðið unnið lið á borð við Arsenal, Tottenham og Englandsmeistara Manchester City.

Liðið hefur þar með unnið liðin sem enduðu í fyrst og öðru sæti deildarinnar á síðasta tímabili og þetta er besta byrjun félagsins í deildinni frá því tímabilið 1980-1981, þegar Aston Villa vann síðast enska titilinn. Þjálfari liðsins, sem og fyrirliðinn, vilja þó ekki fara fram úr sér.

„Ég mun tala um þetta þegar við erum búnir með 30 eða 32 leiki ef við erum enn í sömu stöðu,“ sagði Unai Emery, þjálfari liðsins. „Í upphafi móts erum við ekki í titilbaráttu. Það eru bara 16 leikir búnir. Við erum í Meistaradeildarsæti og þurfum að reyna að halda því.“

John McGinn, fyrirliði liðsins, skoraði eina mark leiksins í sigri Aston Villa gegn Arsenal í gær og hann tekur í sama streng.

„Ég ætla að banna T-orðið,“ sagði McGinn og á þá við að banna það að tala um titilbaráttu.

„Við erum bara búnir með 16 umferðir og það er nóg eftir. Við berum virðingu fyrir liðunum í kringum okkur sem hafa verið í þessari stöðu í mörg ár. Við erum bara byrjendur og við verðum bara að bíða og sjá hvort við getum haldið þessu áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×