Viðskipti innlent

„Enginn góður kostur í stöðunni“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi.
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi. Vísir/Vilhelm

Fólk flýr í auknum mæli óverðtryggð lán og færir sig yfir í verðtryggð lán samkvæmt nýrri skýrslu. Fjármálaráðgjafi segir verðtryggð lán ákveðna frestun á vandamáli og að engin góður kostur sé í stöðunni.

Ný mánaðarskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýnir að fólk sé í auknum mæli að gefast upp á óverðtryggðum lánum og flýja í verðtryggð lán. Uppgreiðslur óverðtryggðra lána jukust mikið á milli mánaða og eru nú um tvöfalt meiri en þegar uppgreiðslur verðtryggðra lána voru mestar eftir vaxtalækkanir í heimsfaraldrinum. Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi segir þessa þróun hafa verið viðbúna vegna mikilla vaxtahækkana.

Frestar vandanum

„Ástæðan fyrir því að fólk fer þarna yfir er sú að þegar þú tekur nýtt lán verðtryggt lán eða endurfjármagnar óverðtryggða lánið með verðtryggðu þá lækkar þú greiðslubyrðina. En það er tímabundið, þú greiðir minna í hverjum mánuði vegna þess að þú ert að fresta ákveðnum vanda,“ segir Björn. 

Fólk sé að greiða hluta af eftirstöðvum og greiði vexti en geyma verðtrygginguna. „Það þýðir að með því að greiða af verðtryggðu láni þá borgarðu vissulega minna á mánuði en lánið verður dýrara þegar uppi er staðið. Þannig þetta er alls ekki ódýrara í heildina þó þetta geti verið var tímabundið.“

Greiða niður skuldir

Verðtryggt lán sé alls ekki ódýrara þegar uppi er staðið en ákveðin frestun. „Ég held að það sé ágætt að við viðurkennum það bara að það sé enginn góður kostur í stöðunni og að gömlu lögmálin varðandi skuldir, að það borgi sig þegar uppi er að staðið að reyna greiða eins mikið og við ráðum við núna,“ segir Björn og bætir við að mikilvægt sé að reyna borga meira inn til að vera ekki að ýta vandamálinu á undan. 

Til þess séu ýmsar leiðir til dæmis að stytta lánstímann, hafa jafnar afborganir í stað jafnra greiðslna auk þess að leggja séreignasparnað inn á lánið.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×