Fótbolti

Fimm­tán ára gömul sala Tottenham gæti komið liðinu í vand­ræði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jermain Defoe er níundi markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 162 mörk. Þar af skoraði hann 91 mark fyrir Tottenham.
Jermain Defoe er níundi markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 162 mörk. Þar af skoraði hann 91 mark fyrir Tottenham. Shaun Botterill/Getty Images

Fimmtán ár eru síðan framherjinn Jermain Defoe var seldur frá Tottenham til Portsmouth, en þrátt fyrir það gæti Tottenham verið í vandræðum vegna sölunnar.

Defoe var á sínum tíma í þrígang á mála hjá Tottenham, en eftir sína fyrstu veru hjá liðinu, á árunum 2004 til 2008, var hann seldur til Portsmouth þar sem hann lék um stutta stund áður en hann gekk aftur í raðir Lundúnaliðsins í janúar árið 2009.

Portsmouth greiddi 7,5 milljónir punda fyrir leikmanninn, sem á núvirði jafngildir 1,3 milljörðum íslenskra króna. Þrátt fyrir að fimmtán ár séu liðin frá félagsskiptunum gæti Tottenham verið að lenda í vandræðum vegna sölunnar.

Breski miðillinn The Times rýndi í málið og segist hafa sannanir fyrir því að Tottenham hafi notað umboðsmann í samningaviðræðunum sem hafði ekki tilskilin leyfi. Enska knattspyrnusambandið, FA, aðhafðist ekkert í málinu á sínum tíma, en segist nú geta hugsað sér að skoða ásakanirnar aftur ef ný sönnunargögn berast.

Komist enska knattspyrnusambandið að því að forráðamenn Tottenham séu sekir af ásökunum gæti félagið átt yfir höfði sér að stig verði dregin af liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Nú fyrir aðeins örfáum dögum voru tíu stig dregin af Everton fyrir brot á fjárhagsreglum deildarinnar og sama ár og Defoe gekk í raðir Portsmouth voru tíu stig dregin af Luton fyrir að brjóta reglur um umboðsmenn.

Það er því ljóst að fordæmin eru til, en fyrir brot á slíkum reglum hafa háttsettir einstaklingar innan félagana einnig verið dæmdir í bann og félög verið dæmd í félagsskiptabann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×