Körfubolti

Elvar með fyrstu þrennuna sem sést hefur í Meistara­deildinni í sex ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson fór á kostum í leiknum í gær og afrekaði það sem enginn leikmaður á útivelli hefur gert áður í Meistaradeildinni í körfubolta.
Elvar Már Friðriksson fór á kostum í leiknum í gær og afrekaði það sem enginn leikmaður á útivelli hefur gert áður í Meistaradeildinni í körfubolta. @basketballcl

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson er einstakur í sögu Meistaradeildarinnar í körfubolta eftir frammistöðu sína í Istanbul í Tyrklandi í gærkvöldi.

Elvar var þá með þrefalda tvennu í 88-77 sigri gríska liðsins PAOK á útivelli á móti Galatasaray.

Þetta var fyrsta þrennan sem lítur dagsins ljós í Meistaradeildinni í sex ár og enn sögulegra er að þetta er fyrsta þrennan sem leikmaður nær á útivelli í allri sögu keppninnar sem er næsthæsta stig Evrópukeppni í körfubolta.

Elvar sem er á fyrsta tímabili sínu með PAOK og var þarna að spila sinn fyrsta Evrópuleik með félaginu var með 19 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar í leiknum. Elvar með köldustu tölfræðilínuna síðan 2017 eins og sjá mátti á miðlum Meistaradeildarinnar eftir leikinn.

Leikurinn fór fram í höll Galatasaray sem heitir Sinan Erdem Dome og tekur sextán þúsund manns í sæti.

Elvar tryggði sér þrennuna með því að gefa stoðsendingu á félaga sinn Andrew Harrison sem skoraði þriggja stiga körfu tíu sekúndum fyrir leikslok.

Hinir tveir leikmennirnir sem náðu þessu eru Chris Kramer í janúar 2017 og Arnas Butkevicius í nóvember 2017. Þeir voru hins vegar báðir að spila á heimavelli í þessum leikjum sínum.

Chris Kramer er Bandaríkjamaður sem var með 16 stig, 10 fráköst og 13 stoðsendingar í leik með þýska liðinu Oldenburg á móti Muratbey Usak en Arnas Butkevicius er Lithái sem var með 19 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar í leik með Neptunas Klaipeda á móti PAOK.

Með því að fletta hér fyrir neðan má sjá nokkur tilþrif frá Elvari úr þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×