Sigurður segir í samtali við fréttastofu að ólíklegt sé að Íslendingarnir komist heim á leið í dag. Hins vegar sé möguleiki á að það gerist á morgun eða hinn.
Sökum átáka milli Hamas-samtakanna og Ísraelsríkis hefur ferð Íslendinganna komist í mikið uppnám. Þau munu þó mögulega fá að fara í rútuferð um Jerúsalem í dag.
Þess má geta að Jerúsalem hefur sloppið vel frá átökunum, en vegna sögulegs mikilvægis hennar virðast báðar fylkingar á sama máli um að borgina beri að vernda.
Um það bil 300 Ísraelsmenn og 300 Palestínumenn eru látnir eftir átökin sem hófust með eldflaugaárásum Hamas-samtakanna í gærmorgun. Enn fleiri eru særðir.
Sigurður ræddi um stöðu hópsins við fréttastofu í gær. Það fer mjög vel um alla og það hafa það allir gott. En svo eru líka ættingjar farþeganna skelkaðir, eðlilega. Það er allt frá ungum börnum og upp í eldra fólk hérna,“ sagði hann.
Þá sagði hann óheppilegt að farþegarnir skyldu lenda á þeim tímapunkti sem þeir gerðu, en að sjálfsögðu sé ekkert fyrirséð. Hann hafi áður talað um hversu öruggum honum liði í Ísrael, hvort sem það var í Jerúsalem, Tel Aviv eða annars staðar.
„Ég sagði við marga, maður er hultari í þessu landi en í London eða París, svo ég tali nú ekki um Stokkhólm. En svo lendum við bara í þessu.“