Þetta er meðal niðurstaðna í rannsókn starfsmanna OHCHR eftir nokkrar vettvangsferðir til Úkraínu. Rannsóknarnefndin hefur áður sagt að glæpir rússneskra hermanna í Úkraínu gætu verið flokkaðir sem glæpir gegn mannkyninu.
Erik Møse, sem stýrði rannsókninni, sagði á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum í gær að teymi hans hefði safnað gögnum og vísbendingum um að pyntingar á yfirráðasvæðum Rússa í Úkraínu væru umfangsmiklar og kerfisbundnar. Fólk hafi í nokkrum tilfellum dáið vegna þessara pyntinga.
Fólk sem grunað er um að veita yfirvöldum í Kænugarði upplýsingar hefur verið pyntað mikið
Létu fjölskyldur hlusta á nauðganir
„Rússneskir hermenn nauðguðu og brutu kynferðislega á nítján til 83 ára gömlum konum í Kherson-héraði,“ sagði hann einnig. Hann sagði að í mörgum tilfellum hefðu fjölskyldumeðlimir kvennanna verið látnir hlusta á nauðganirnar.
Fregnir sem þessar berast reglulega frá Úkraínu. Yfirvöld í Rússlandi þvertaka fyrir að rússneskir hermenn hafi brotið á óbreyttum borgurum en Møse sagði samkvæmt Reuters í gær að tilraunir rannsóknarnefndarinnar til að hafa samskipti við Rússa vegna rannsóknarinnar hefðu ekki borið árangur.
Sjá einnig: 75 ára kona barin, skorin og nauðgað
Yfirvöldum í Kreml hafi einnig verið gefið tækifæri til að svara ásökunum sem fram koma í skýrslu OHCHR en það hafi ekki verið gert.

Ekki sambærileg brot
Rannsóknarnefnd OHCHR segir Rússa hafa gert árásir á íbúðarbyggingar, sjúkrahús, lestarstöð, veitingahús, verslanir og vöruskemmur sem tengist stríðinu ekki á nokkurn hátt. Árásir þessar eru sagðar hafa valdið mannfalli meðal óbreyttra borgara og fordæmir rannsóknarnefndin þær.
Þegar Møse svaraði spurningum blaðamanna í gær þvertók hann fyrir að hægt væri að leggja brot beggja fylkinga í stríðinu að jöfnu.
Rússar hefðu framið fjölmörg og umfangsmikil brot. Úkraínumegin væru nokkur dæmi um árásir sem þjónuðu ekki hernaðarlegum tilgangi og slæma meðferð á rússneskum stríðsföngum.
Nefndin hefur einnig til rannsóknar flutninga yfirvalda í Rússlandi á úkraínskum börnum til Rússlands. Dómarar Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) hafa gefið út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, fyrir stríðsglæpi vegna þessara flutninga.
Þar að auki er hún að skoða það þegar Nova Kakhovka-stíflan brast í Kherson héraði í vor. Talið er að stíflan, sem var undir stjórn Rússa, hafi verið sprengd í loft upp.
Þá stendur til að nefndin framkvæmi frekari rannsóknir á árásum á borgaralega innviði, pyntingum og kynferðisbrotum.