Handbolti

Allt í járnum eftir fyrri leik Vals­kvenna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Anna Úrsúla skoraði eitt mark fyrir Val í dag.
Anna Úrsúla skoraði eitt mark fyrir Val í dag. Vísir/Hulda Margrét

Valur tapaði með eins marks mun gegn rúmenska liðinu Dunarea Bralia í undankeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik í dag. Seinni leikurinn fer fram ytra um næstu helgi.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi en hann fór fram í Origo-höllinni að Hlíðarenda. Gestirnir byrjuðu betur og voru 9-6 yfir þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður.

Sá munur hélst út hálfleikinn, mestur varð hann fjögur mörk en Dunarea Bralia leiddi 15-12 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleikspásunni.

Svipað var uppi á teningunum í síðari hálfleik. Valsliðið var alltaf að elta en vantaði að taka skrefið og ná að jafna metin og komast yfir. Það fyrrnefnda tókst loksins þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Lilja Ágústsdóttir jafnaði þá í stöðunni 25-25.

Síðustu mínúturnar voru æsispennandi og jafnt á öllum tölum. Þórey Anna Ásgeirsdóttir jafnaði í 29-29 þegar rúm mínúta var eftir en rúmenska liðið náði forystunni á ný. Gestirnir fengu síðan síðustu sókn leiksins til að ná tveggja marka mun en náðu ekki skoti á markið.

Lokatlur 30-29 fyrir Dunarea Bralia og því allt í járnum fyrir síðari leik liðanna um næstu helgi.

Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 8, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6, Lilja Ágústsdóttir 6, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 7 (eitt víti) og Sara Sif Helgadóttir 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×