Hillary Rodham Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, kemur fram í Hörpu í tilefni af bókmenntahátíðinni Iceland Noir í nóvember. Með Hillary verður kanadíski metsöluhöfundurinn Louise Penny en saman skrifuðu þær bókina Ríki óttans [e. State of Terror] sem er pólitísk spennusaga.
„Miðasalan gengur ótrúlega vel. Við bjuggumst reyndar alveg við því,“ segir Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur og að hún telji líklegt að það seljist upp um helgina.
Toguðu í alla spottana
„Hátíðinni lýkur á laugardeginum þannig þetta verður svona hliðarviðburður. Svo fannst okkur, af því að þetta er Hillary Clinton, að við þyrftum að fá einhvern mjög fínan sal og tókst að fá Eldborg,“ segir Yrsa létt.
Hún segir í raun hafa gengið ótrúlega vel að fá Clinton á hátíðina en viðurkennir að þau hafi togað í alla þá spotta sem hægt var að toga í til að tryggja komu Clinton á hátíðina.
„Hún verður á Írlandi þessa helgi í opinberri heimsókn og tekur stopp á leiðinni heim. Þær tvær eru að koma saman á sviði í fyrsta sinn. Þær skrifuðu þessa bók saman sem varð auðvitað metsölubók,“ segir Yrsa sem ekki hefur lesið bókina sjálf en segir hana næsta á listanum.
Eftir að þær hafa Hillary og Louise hafa talað mun Eliza Reid, forsetafrú, ræða við þær um bókina og lífshlaup þeirra.
Yrsa er annar stofnenda Iceland Noir en hinn er rithöfundurinn Ragnar Jónasson. Hún segir að löngu sé orðið uppselt á hátíðina og langur biðlisti að komast að. Hún segir dagskrána mjög þétta og marga gesti væntanlega.
„Við höfum haldið sjö hátíðir á síðustu tíu árum og hefur tekist að skapa okkur þannig sess að við getum fengið stór nöfn á hátíðina,“ segir Yrsa en meðal gesta á hátíðinni í ár eru Dan Brown, Neil Gaiman og Irvine Welsh.
„Irvine skrifaði Trainspotting og hann verður DJ í lokapartýinu.“
Ekki bara útlenskir gestir
Hátíðin einskorðast ekki aðeins við glæpahöfunda því meðal gesta verða einnig innlendir og erlendir gestir. Til að mynda leikarinn Richard Armitage og Ólafur Darri.
„Útlendingarnir elska það. Ólafur Darri er risi erlendis. Þetta hefur breyst frá því að vera lítil glæpahátið. Við vorum eiginlega komin í gegnum alla stóru glæpahöfundana og erum búin að útvíkka þetta. Það eru svo margar leiðir til að segja sögur,“ segir Yrsa að lokum.
Miðasala á viðburðinn hófst í kvöld á tix.is.