Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 eru áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga 277,2 milljarðar króna. Þar segir að vel hafi árað á vinnumarkaði það sem af er ári, laun hafi hækkað, fjöldi vinnustunda aukist og atvinnuleysi haldist lítið.
Innheimta staðgreiðslu hafi því verið með besta móti. Vegna verðbólgu á yfirstandandi ári muni skattleysis-og þrepamörk hækka umtalsvert næstu áramót vegna áður lögfestra breytinga um þróun viðmiðunarfjárhæða.
Önnur breyting, sem tók gildi fyrir tekjuárið 2022, fól meðal annars í sér að þrepamörk hækka sem nemur verðbólgustigi við lok hvers árs að viðbættu 1 prósents framleiðniviðmiði. Henni er ætlað að koma í veg fyrir raunskattskrið og verja kaupmátt launa.
Þjóðhagsspá geri ráð fyrir 7,4 prósenta verðbólgu í lok árs. Því er áætlað að persónuafsláttur og þrepamörk hækki um 8,5 prósent fyrir árið 2024.
Gert er ráð fyrir því að einstaklingur með 500 þúsund í mánaðartekjur muni því greiða 7.314 kr. minna í skatt í janúar 2024 en hann gerði í desember 2023.