Frederik virkaði ekki alveg klár í leikinn og vakti frammistaða hans upp vangaveltur hjá sérfræðingum Stúkunnar, þeim Atla Viðari Björnssyni og Baldri Sigurðssyni.
„Ég set stórt spurningarmerki við Frederik í leiknum,“ sagði Atli Viðar. „Ef við byrjum á öðru marki Víkinga, þar verður hann bara að gjöra svo vel að gera betur. Hann getur ekki gefið svona þægilegt mark niðri í nærhorni sínu.
Manni fannst hann vera ólíkur sér í þessum leik, þetta mark er svo sannarlega ólíkt honum. Þá er uppspilið hans, þegar að hann var með boltann við tærnar á sér, í besta falli skrýtið allan leikinn.
Hann notaði vinstri fótinn furðulega mikið og mér fannst hann alltaf virka þvingaður og stirður, eins og honum liði ekki vel. Ég velti því fyrir mér, á meðan að ég horfði á leikinn, hvort hann væri yfir höfuð heill heilsu. Þetta voru þannig tilburðir.“
Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar, tók þá boltann á lofti og segir menn þá giska á hvort Fredrik sé meiddur hægra megin í líkamanum.
„Eins og þú segir tók hann boltann eiginlega alltaf strax, með fyrstu snertingu, yfir á vinstri fótinn og þegar að hann er að fara niður til hægri í þessu öðru marki Víkinga þá lítur hann bara alls ekki vel út.“
Þá segir Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar að Fredrik hafi, með frammistöðu sinni í sumar, sett gríðarlega háann standard á væntingum í hans garð.
„Miðað við hvernig hann hefur spilað frá því að hann kom inn í deildina. Þetta var því óeðlilegt.“