Íslandsmeistarar Breiðabliks og topplið Víkinga eigast við í næstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fer fram á sunnudaginn kemur frekar en mánudaginn eins og ætlað var. Breiðablik vildi þó flytja leikinn aftar og spila þegar hlé verður gert á Bestu deildinni í október.
Samkvæmt frétt Fótbolti.net fyrr í dag tóku Víkingar ekki í þá beiðni en Breiðablik vildi færa leikinn til að liðið fengi algjört frí á milli þess sem það spilar gegn Struga frá Norður-Makedóníu í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Framkvæmdastjóri Víkings staðfesti skömmu síðar í viðtali við Fótbolti.net að Breiðablik hefði ekki beðið formlega um að færa leikinn inn í landsleikjahléið. Haraldur sagði að hann hefði rætt við framkvæmdastjóra Breiðabliks, Eystein Pétur Lárusson, en þar hefðu Víkingar sagt strax að ekki væri hægt að spila leikinn í landsleikjahléinu.
„… værum að keppa um titilinn, færum með færeyskan landsliðsmann, U-21 árs landsliðsmenn, svo er spurning með Aron Þrándarson og A-landsliðið,“ sagði Haraldur.
Þá benti Haraldur á að hvorugt lið vissi hversu margir af leikmönnum þeirra yrðu valdir í komandi landsliðsverkefni: „Það á eftir að velja hópana, segir sig bara sjálft.“
Haraldur sagði einnig að Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, væri allur af vilja gerður til að hjálpa Blikum þar sem Arnar trúir á karma. Það kom því aldrei beiðni á borð Víkinga og því ekki hægt að gera neitt í því.
Í enda spjallsins við Fótbolti.net velti Haraldur fyrir sér af hverju Blikar hefðu ekki fært síðasta leik, gegn Keflavík, inn í landsleikjahléið. Keflavík væri ekki með neina landsliðsmenn og því hefði það átt að vera hægt.
„Þá hefðu Blikar fengið frí fram að útileiknum í Sambandsdeild Evrópu,“ sagði Haraldur að lokum.
Leikur Breiðabliks og Struga fer fram ytra á fimmtudaginn kemur, 24. ágúst. Verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Sama má segja um viðureign Breiðabliks og Víkings á sunnudaginn kemur, 27. ágúst.