Körfubolti

James Harden kallar forseta 76ers lygara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden vill alls ekki spila fyrir Philadelphia 76ers.
James Harden vill alls ekki spila fyrir Philadelphia 76ers. Getty/ Leff Mitchell Leff

Bandaríski körfuboltamaðurinn James Harden hefur flakkað á milli NBA félaga undanfarin ár og margoft beðið um að vera skipt í nýtt félag. Nú þegar það er ekki að ganga hjá honum í þetta skiptið þá úthrópar hann eiganda félagsins síns.

Nú er kappinn nefnilega mjög ósáttur hjá Philadelphia 76ers og vill helst komast til Los Angeles Clippers.

Philadelphia 76ers reyndi að finna lið fyrir hann en eftir að ekkert kom út úr því þá tilkynnti félagið að Harden yrði áfram leikmaður 76ers.

Harden er mjög ósáttur með þær fréttir og hann sparaði ekki yfirlýsingarnar þegar hann varð spurður út í Daryl Morey, forseta 76ers.

„Daryl Morey er lygari og ég verð aldrei hluti af félagi þar sem hann starfar,“ sagði James Harden á kynningarkvöldi Adidas í Kína.

„Ég skal segja þetta aftur. Daryl Morey er lygari og ég mun aldrei verða hluti af félagi þar sem hann starfar,“ sagði Harden.

Sixers ætlaði að leita að nýju félagi eftir að Harden ákvað að nýta sér 35,6 milljón dollara ákvæði fyrir komandi tímabil. Sixers vildi hins vegar fá allt of mikið í staðinn fyrir hann og ekkert félag sætti sig við það.

Harden er þó sérstaklega ósáttur með að Daryl Morey vill ekki bjóða honum stóran langtímasamning.

James Harden var með 21,0 stig og 10,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili. Hann heldur upp á 34 ára afmælið sitt seinna í þessum mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×