Rúmlega þúsund þátttakendur eru skráðir til leiks í átján keppnisgreinum á Unglingalandsmóti UMFÍ og talið er að á bilinu fjögur til fimm þúsund manns sæki mótið.
Keppt er í fjölbreyttum greinum á borð við grashandbolta og grasblaki auk kökuskreytinga, sem er vinsælasta greinin í ár.
Mikill fjöldi annarra viðburða er jafnframt í boði eins og sandhlaup, bandý, blindrabolti og margt fleira. Foreldrar, forráðafólk og systkini þátttakenda geta tekið þátt í öllum greinum sem boðið er upp á.
Vakti athygli vegna skóbúnaðar
Meðal greina sem keppt er í er hlaupaskotfimi (e. biathlon). Það vakti mikla athygli í gær þegar einn keppenda spretti úr spori í Crocs-skóm í hvítbláum UMFÍ-lit.

Hver umferð í hlaupaskotfimi hefst á því að keppandi skýtur fimm skotum af rafriffli í mark. Ef hann hittir í öll skiptin getur hann hlaupið af stað 150 metra hring. Hitti keppandi ekki þarf hann að hlaupa styttri refsihring fyrir hvert skot sem geigar og síðan 150 metra hringinn.
Í fréttatilkynningu frá UMFÍ segir að Crocs-keppandinn hafi byrjað af krafti en honum hafi fatast flugið eftir því sem á leið og á endanum ekki landað sigri.
Ekki segir hvað Crocs-keppandinn heitir í tilkynningu UMFÍ en það er ljóst að hann hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í gær.