Innlent

Eftir­lýstur maður með bar­efli, bíl­velta og brennandi kofi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt og gistu sjö manns fangaklefa vegna ýmissa brota.
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í nótt og gistu sjö manns fangaklefa vegna ýmissa brota. Vísir/Vilhelm

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt ef marka má dagbók lögreglu. Þar segir að sjö manns hafi gist fangaklefa fyrir hin ýmsu brot.

Í Hlíðahverfinu var maður handtekinn sem búið var að lýsa eftir. Hann reyndist vera vopnaður barefli og með fíkniefni í fórum sínum svo hann var vistaður í fangaklefa. Þá kom lögregla manni til bjargar sem hafði farið í sjóinn í Fossvoginum og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Maður var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna þjófnaðar úr verslun í hverfi 101. Í sama hverfi var óvelkomnum einstaklingi vísað á brott eftir að hafa komið sér fyrir í húsnæði. Þá féll maður á torfæruhjóli í miðborginni og slasaðist lítilsháttar en hann á von á kæru þar sem hann var heppinn að keyra ekki á gangandi vegfarendur og slasa þá.

Bílvelta varð í Múlunum með ökumann og farþega innanborðs en þeir sluppu með minniháttar meiðsli. Í Laugardalnum var brotist inn í skólabyggingu og unnin skemmdaverk innandyra. Ekki er vitað hverjir voru að verki en málið er í rannsókn.

Brotlegir ökumenn, líkamsárásir og brennandi kofi

Ökumaður var sviptur ökuréttindum í miðbæ Hafnarfjarðar en hann gerst sekur um ítrekuð umferðarlagabrot. Það sama var uppi á teningunum í miðbæ Kópavogs nema þá var viðkomandi ökumaður réttindalaus.

Í Árbænum var maður handtekinn vegna líkamsárásar og var hann vistaður í fangaklefa. Í sama hverfi kviknaði í kofa út frá einnota grilli. Lögreglumönnum tókst að slökkva eldinn með slökkvitækjum.

Maður var handtekinn í Grafarvoginum eftir líkamsárás. Viðkomandi var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa þar sem hann bíður skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×