Atvinnulíf

Leiðir til að minnka notkun samfélagsmiðla á vinnutíma

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það getur verið erfitt að setja sér mörk um samfélagsmiðlanotkun á vinnutíma: Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok, Tinder o.s.frv. En hér eru nokkur einföld dæmi um ráð sem gætu hjálpað.
Það getur verið erfitt að setja sér mörk um samfélagsmiðlanotkun á vinnutíma: Facebook, Instagram, Snapchat, TikTok, Tinder o.s.frv. En hér eru nokkur einföld dæmi um ráð sem gætu hjálpað. Vísir/Getty

Fyrst þegar Facebook fór að verða vinsælt á Íslandi var ekki óalgeng umræða meðal stjórnenda hvort það ætti að banna að nota samfélagsmiðilinn á vinnutíma,

Sem sumir vinnustaðir gerðu.

Síðan þá hefur margt breyst. Símarnir tóku alfarið við sem tækið sem allir nota fyrir alla hluti: Samfélagsmiðla, fjölmiðla, banka, heilsu, þjónustu af öðru tagi o.s.frv. og flóra samfélagsmiðla hefur aldrei verið jafn fjölbreytt og nú.

Í dag er því meira um það rætt hvað er æskilegt að við séum að birta á samfélagsmiðlum með tilliti til vinnustaðar eða starfsframa, frekar en boð og bönn um notkun samfélagsmiðla á vinnutíma. Vinnuveitendur líta líka jákvætt á það hvernig starfsfólk getur haft gríðarlegt auglýsingagildi fyrir vinnustaðinn; með því að sýna og segja frá hvað er verið að gera þar.

Eftir stendur að margir eru samt í smá vandræðum með notkun sína á samfélagmiðlum. Því hvar eigum við að draga mörkin? Og hvenær er notkunin okkar farin að hafa hamlandi áhrif á það hvernig við viljum standa okkur sem starfsmenn.

Hér eru dæmi um einföld ráð.

Taktu tímann og gerðu síðan tímaáætlun

Með því að reyna að áætla hvað það fer mikill tími í það hjá okkur að skrolla samfélagsmiðlana eða að fylgjast með viðtökum á okkar eigin efni, er ágætt að byrja á því að skoða hvert mynstrið okkar er í mínútum eða klukkustundum talið.

Hversu mikill tími er þetta? Og hvar eru gryfjurnar?

Mjög líklega erum við til dæmis líklegri til að verja meiri tíma á samfélagsmiðlum ef við erum sjálf nýbúin að pósta einhverju. Ráð til að sporna við tíma á samfélagsmiðlum á vinnutíma gæti því verið að birta ekki stöðufærslur eða sögur í upphafi vinnudags eða vaktar.

Það sama gæti gilt um Tinder eða önnur stefnumótunarforrit. Að vera ekki virk að skoða skilaboð eða svara þeim fyrr en eftir vinnu.

Settu þér þínar eigin reglur

Ef við viljum setja okkur mörk um samfélagsmiðlanotkunina okkar er gott að fara yfir það með okkur sjálfum hvers vegna við viljum gera það og hvert markmiðið er.

Ein ástæða gæti til dæmis verið sú að við finnum innra með okkur að okkur finnst við oft of upptekin af samfélagsmiðlum á vinnutíma og skömmumst okkar jafnvel fyrir. Ef þess lags tilfinning fylgir samfélagsmiðlanotkunina okkar erum við augljóslega að fara yfir okkar eigin mörk og eigum því að setja okkur sjálfum leikreglur sem eru í samræmi við hvernig okkur líður og hvernig við viljum ná árangri, óháð því hvað aðrir gera.

Búðu þér til þína eigin gulrót

Boð og bönn eru oftast leið sem virka ekki til lengdar. Þess vegna er ágætt að hugsa það fyrirfram hvaða gulrót við ætlum að hafa í áætlunina okkar sem okkur finnst skemmtileg. Ein leiðin gæti til dæmis verð að skipta á milli samfélagsmiðla.

  • Að í einni pásunni séum við að kíkja á Facebook
  • Þeirri næstu Instagram
  • Og þeirri þarnæstu TikTok
  • Síðan Snapchat
  • Ein pásan fari í að skoða fyndin myndbönd
  • Önnur pásan að skrifa afmælisóskir
  • Ein pásan fari í að kíkja á Tinder

O.s.frv. Eitthvað sem í senn gerir hugann okkar upptekin af því að halda planinu okkar um styttri tíma á samfélagsmiðlunum en þó samkvæmt leikreglum sem okkur þykir svolítið spennandi að standa við.

Hvað ætlar þú að gera í staðinn?

Þá er það tilgangurinn. Hvers vegna erum við að breyta þessari venju hjá okkur? Viljum við afkasta meiru í vinnunni eða ná að klára verkefni dagsins korteri áður en vinnutíma lýkur?

Viljum við minnka notkunina til þess að fara þess í stað oftar út í hádegi og hitta vini.

Ætlum við að verða betri í einhverju sem við erum að gera í vinnunni?

Eða snýst þetta um að efla sjálfið okkar þannig að okkur líði betur með okkur sem góða starfsmenn?

Í stað þess að búa aðeins til áætlun um það hvernig við ætlum að minnka notkunina á samfélagsmiðlum, er líka skemmtilegt að vera með markmið um eitthvað sem við ætlum okkur að ná árangri í í staðinn. Það gerir verkefnið okkar einfaldlega skemmtilegra.


Tengdar fréttir

Ranghugmyndir um hvaða fólk notar TikTok og hvernig

„Oft er TikTok bara meðhöndlað þannig að yngsta starfsmanninum er réttur síminn og hann beðinn um að gera eitthvað sniðugt,“ segir Klara Símonardóttir framkvæmdastjóri Petmark sem nýlega hlaut hæstu einkunn í viðskiptadeild Háskólans á Bifröst það sem af er ári, fyrir BS ritgerðina sína í viðskiptafræði.

Svona gengur okkur best í vinnunni

Við viljum öll standa okkur vel en það er óþarfi að bíða eftir árlegu frammistöðumati í vinnunni til að setja okkur markmið eða átta okkur betur á því hvernig við stöndum okkur.

Að vera óánægður í nýju vinnunni

Á tímum heimsfaraldurs upplifa flestir þakklæti fyrir það að hafa vinnu og framfærsluöryggi. Og þeir sem hafa upplifað atvinnuleysi, eru ekki síst þakklátir þegar þeir fá loksins starf. En hvað ef okkur líður þannig að við erum svo óánægð í nýju vinnunni? 

Í vinnu eða atvinnuleit: Ekki birta of mikið á samfélagsmiðlum

Við erum sjaldan jafn dugleg að birta myndir á samfélagsmiðlunum og þegar að við erum í sumarfríi. Enda skemmtilegt að sjá hvert fólk er að ferðast og hvað það er að gera. En það eru margar ástæður fyrir því að fólk ætti að forðast að birta of mikið af myndum, of oft eða hvaða myndir sem er.

Vísbendingar um að starfsmaður ætli sér að segja upp

Mikil starfsmannavelta er vinnustöðum kostnaðarsöm. Ekki aðeins getur verið dýrt að ráða inn eða þjálfa nýtt starfsfólk, heldur er það líka missir ef duglegt starfsfólk með góða reynslu og þekkingu hættir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×