Aðildarríki Samvinnustofnunar Sjanghæ (SCO), þar á meðal Indland, Kína og Rússland, funduðu í gegnum fjarfundarbúnað í dag. Sá félagsskapur er mun vinveittari Pútín og Rússlandi en aðrar alþjóðlegar stofnanir um þessar mundir, sérstaklega eftir að Rússar gerðu sjálfa sig að úrhraki í alþjóðasamfélaginu með því að ráðast inn í Úkraínu í fyrra.
Ávarp Pútíns var jafnframt það fyrsta á alþjóðlegum vettvangi eftir skammlífa uppreisn Jevgeníj Prigozhin og Wagner-málaliðahers hans í síðasta mánuði.
„Rússneska þjóðin er sameinaðri sem aldrei fyrr. Stjórnmálasamfélagið og allt samfélagið sýndi samstöðu og ábyrgð á örlögum föðurlandsins með því að mynda sameinað víglínu gegn tilraun til vopnaðrar uppreisnar,“ sagði Pútín.
Aðrir þjóðarleiðtogar forðuðust að nefna uppreisnartilraunina beint en hörmuðu afleiðingar hennar, að sögn AP-fréttastofunnar. Pútín þakkaði þeim fyrir stuðninginn en sakaði vestræn ríki um að egna Úkraínu gegn Rússlandi. Forsetinn hefur ítrekað kennt vesturlöndum um að hann hafi ákveðið að ráðast á Úkraínu.
Íranir fengu inngöngu í SCO á ráðstefnunni í dag. Aðildarríki stofnunarinnar eru þar með orðin níu: Kína, Rússland, Indland, Pakistan, Kasakstan, Kirgistan, Tadsíkistan og Úsbekistan. Hvíta-Rússland gæti orðið tíunda aðildarríkið á næstunni, að sögn AP-fréttastofunnar.