Þann 28. september í fyrra lenti Boeing 757 þota Icelandair í minniháttar árekstri á Heathrow. Engum varð meint af en hliðarstýri flugvélarinnar skemmdist, sem og vinstri vængur flugvélar suður-kóreska flugfélagsins Korean air.
Menntaskólanemendur, sem voru á leið heim með flugvélinni eftir námsferð í Lundúnum, lýstu árekstrinum í samtali við Vísi á sínum tíma. Þeir sögðu áreksturinn hafa verið mikinn skell.
Flugstjórinn vanur því að fylgja öðru verklagi
Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að áreksturinn hafi orðið vegna þess að kóresku flugvélinni var ekið fram hjá hinni íslensku, þar sem stjórnendur hennar töldu þá í íslensku vera að fullu lagt í stæði. Þá hafi flugstjóri hennar talið að árekstrarmerki logaði ekki, þrátt fyrir að það hafi gert það.
Rannsóknarnefndin segir að flugstjóri hafi virt almennar leiðbeiningar, þess efnis að beygja ekki inn í stæði fyrr en leiðbeiningar lægju fyrir, að vettugi. Flugstjórinn sagði við rannsóknina að hann væri vanur að beygja inn í stæði og bíða þar eftir nánari leiðbeiningum.
Þá segir að frumorsök slyssins hafi verið skortur á leiðsögn á Heathrow vegna manneklu. Það væri viðvarandi vandamál á flugvellinum, sem allir hlutaðeigandi þyrftu að takast á við í sameiningu.