„Þetta var hátíðisdagur fyrir okkur. Það var mikil gleði og mikið af gestum kom heim til okkar og við fögnuðum alveg rosalega mikið,“ segir Magnea Rún. „Á sama tíma veltir maður fyrir sér hvers vegna þetta hafi verið einhver spurning til að byrja með.“
Líkamlegar refsingar bannaðar
Atvikið átti sér stað í maí mánuði árið 2021, þegar stúlkan var þrettán ára gömul. Kennaranum, sem er kona, var sagt upp störfum í kjölfar atviksins sem var kært til lögreglu á sínum tíma. En hún lögsótti bæjaryfirvöld vegna brottrekstrarins og hlaut stuðning Kennarasambandsins og Félags grunnskólakennara.
Þann 17. febrúar árið 2022 dæmdi Héraðsdómur Norðurlands eystra kennaranum í vil og átta milljónir króna í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Sagði þar að atvikið hafi ekki verið gróft brot sem gæti réttlætt fyrirvaralausan brottrekstur.
Þessum dómi var hins vegar snúið við í gær í Landsrétti. Í dómi Landsréttar segir að háttsemi konunnar hafi falið í sér gróft brot í starfi og að skólanum hafi verið heimilt að segja henni fyrirvaralaust upp störfum. Starfsfólki sé óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni.
Kennarasambandinu til skammar
Magnea segir að fjölskyldan hafi verið að bíða eftir þessari niðurstöðu og telur að málinu sé nú lokið. Að minnsta kosti á milli kennarans fyrrverandi og bæjarins.
Magnea Rún og Kristján Már Þorsteinsson, faðir stúlkunnar, stigu fram á sínum tíma fram og sögðu sína sögu, frá aðstæðum dóttur þeirra og baráttu hennar við þunglyndi og sjálfsskaðahugsanir. Foreldrarnir gerðu það eftir að Kennarasambandið birti tilkynningu þar sem Dalvíkurskóli var nafngreindur og málavöxtum lýst ítarlega. En í dómi héraðsdóms, sem var birtur nafnlaust, hafði Dalvík ekki verið nefnd sem vettvangur atviksins.
Taldi fjölskyldan að Kennarasambandið hefði svo gott sem nafngreint dóttur þeirra í pistlinum því að bæjarfélagið teldi aðeins tvö þúsund sálir og allir bæjarbúar hefðu getað lesið á milli línanna. Blöskraði þeim umræðan sem birtist um dótturina og háttsemi kennarans í athugasemdakerfum.
„Manni finnst náttúrulega sorglegt að þau hafi virkilega tekið þennan pólinn í hæðina með þetta mál, og algjörlega til skammar,“ segir Magnea Rún um Kennarasambandið. Hún segist þó ekki fara formlega fram á það að Kennarasambandið biðjist afsökunar á sínum þætti í málinu.