Körfubolti

Jokic dró vagninn fyrir Den­ver sem er komið yfir gegn Lakers

Aron Guðmundsson skrifar
Jokic og Davis í baráttu í leik næturinnar
Jokic og Davis í baráttu í leik næturinnar Vísir/Getty

Den­ver Nug­gets vann fyrsta leik úr­slita­ein­vígis vestur­deildar NBA í nótt gegn Los Angeles Lakers. Nikola Jokic var besti maður vallarins í leik sem lauk með 132-126 sigri Den­ver.

Jokic, einn besti leik­maður NBA deildarinnar um þessar mundir, lagði sitt af mörkum til þess að Nug­gets kæmist yfir í ein­víginu gegn Lakers. Hann náði að skila inn þre­faldri tvennu í nótt með 34 stigum, 21 frá­kasti og 14 stoð­sendingum.

Þre­földu tvennunni hafði hann náð að skila inn fyrir lok þriðja leik­hluta og er það í þriðja sinn í röð í úr­slita­keppninni sem það gerist.

Þá var Michael Porter Jr. einnig at­kvæða­mikill fyrir Nug­gets með 15 stig og 10 frá­köst.

Lakers sló út ríkjandi NBA meistara Golden Sta­te Warri­ors í undan­úr­slitum en er nú lent undir gegn Nug­gets.

Ant­hony Davis dró vagninn fyrir Lakers í stiga­skorun í nótt með alls 40 stig, þá skilaði hann inn 10 frá­köstum og remur stoð­sendingum.

Lebron James var með 26 stig fyrir lakers, 12 frá­köst og 9 stoð­sendingar.

Næsti leikur liðanna fer fram þann 18. maí næst­komandi, hann verður spilaður í Den­ver líkt og leikur næturinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×