Körfubolti

Boston tryggði sér oddaleik en Durant og félagar í sumarfrí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jayson Tatum hitti ekkert fram eftir leik en sjóðhitnaði á lokasprettinum og það skipti öllu máli fyrir Boston Celtics.
Jayson Tatum hitti ekkert fram eftir leik en sjóðhitnaði á lokasprettinum og það skipti öllu máli fyrir Boston Celtics. AP/Matt Slocum

Boston Celtics og Philadelphia 76ers mætast í oddaleik og hreinum úrslitaleik um sæti í úrslitum Austurdeildarinnar í NBA en Denver Nuggets er komið í úrslitin í Vesturdeildinni.

Boston jafnaði metin á móti 76ers með því að vinna 95-86 sigur í Philadelphia en gestirnir frá Boston unnu fjórða leikhlutann 24-13.

Jayson Tatum hjá Boston leit út fyrir að vera eiga einn sinn versta leik á tímabilinu og það á úrslitastund. Hann átti hins vegar eftir að vera hetja liðsins í lokin.

Tatum setti niður fjóra þrista á lokakaflanum og var með fjórtán af nítján stigum á síðustu sjö mínútum leiksins. Tatum hafði klikkað á fjórtán af fimmtán fyrstu skotum sínum í leiknum.

Boston Celtics fór erfiðu leiðina í fyrstu umferðinni eftir að hafa lent 3-2 undir á móti Milwaukee Bucks og eru nú aftur komnir í oddaleik á heimavelli sínum eftir að hafa verið 3-2 undir.

Marcus Smart var stigahæstur með 22 stig auk þess að taka 7 fráköst og gefa 7 stoðsendingar. Jaylen Brown var með 17 stig.

Joel Embiid skoraði 26 stig og tók 10 fráköst, Tyrese Maxey var með 26 stig en James Harden skoraði bara 13 stig og klikkaði meðal annars á öllum sex þriggja stiga skotum sínum.

Denver Nuggets sendi Phoenix Suns í sumarfrí með sannfærandi 25 stiga sigri í Phoenix, 125-100. Denver vann þar með einvígi 4-2 og mætir annað hvort Los Angeles Lakers eða Golden State Warriors í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Nikola Jokic bauð upp á þrennu en hann var með 32 stig, 12 stoðsendingar og 10 fráköst. Jamal Murray skoraði 26 stig og Kentavious Caldwell-Pope var með 21 stig. Þetta var þriðja þrenna Jokic í síðustu fjórum leikjum en hann hitti úr 13 af 18 skotum sínum í leiknum.

Það var baulað á leikmenn Suns í hálfleik enda þá komnir þrjátíu stigum undir, 81-51, og leikurinn nánast búinn. Liðið var án Chris Paul, sem meiddist í öðrum leik einvígisins og miðherjinn Deandre Ayton gat heldur ekki spilað í nótt.

Cameron Payne var stigahæstur hjá Phoenix með 31 stig, Kevin Durant skoraði 23 stig en Devin Booker var bara með 12 stig eftir að hafa farið á kostum alla úrslitakeppnina.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×