Stjórnvöld í Úkraínu gáfu út í dag að 72 ára gömul kona hafi látist og þrír aðrir slasast eftir stórskotaliðsárásir rússneskara hersveita á nálæga bæinn Nikopol. Úkraínumenn hafa sömuleiðis gert reglulegar árásir á framlínu Rússa nærri kjarnorkuverinu og er óttast að aukin harka muni færast í átökin þar á næstunni.
Rafael Grossi, forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar segir aðstæður við Zaporizhzhya kjarnorkuverið verða „sífellt ófyrirsjáanlegri og mögulega hættulegar.“
Eiga von á harðari átökum
„Ég hef gífurlega miklar áhyggjur af þeim mjög raunverulegu hættum sem kjarnorkuverið stendur frammi fyrir,“ sagði Grossi í gær, áður en fregnir bárust í morgun af nýjustu árásum Rússa.
AP-fréttaveitan greinir frá þessu en Grossi taldi ástæðu til að vekja athygli á stöðu mála eftir að Yevgeny Balitsky, fylkisstjóri Zaporizhzhia-fylkisins, fyrirskipaði flutning almennra borgara frá átján hverfum á svæðinu, þar á meðal Enerhodar sem er staðsett næst kjarnorkuverinu. Balitsky var skipaður af rússneskum stjórnvöldum en Zaporizhzhia-fylkið er að hluta til á valdi Rússa.
Balitsky segir árásir úkraínskra hersveita hafa færst í aukanna á síðustu dögum. Greinendur telja að úkraínsk stjórnvöld muni meðal annars beina sjónum sínum að Zaporizhzhia í væntanlegri gagnsókn sinni og reyna að ná svæðinu öllu aftur á sitt vald.