Verkfall handritshöfunda í Rithöfundafélagi Bandaríkjanna (WGA) er það fyrsta í fimmtán ár. Viðræður handritshöfunda við Bandalag kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda (AMPTP) fóru út um þúfur og rann kjarasamningur þeirra út á miðnætti að bandarískum tíma í nótt. Í kjölfarið sendi félagið út þau skilaboð til félagsmanna að hætta öllum handritaskrifum.
Deilan snýst um greiðslur til handritshöfunda á tímum streymisveita. Handritshöfundar eru óánægðir með kjör sín og ósáttir við fækkun í stéttinni. Mun fleiri sjónvarpsþáttaraðir og kvikmyndir séu nú framleiddar en áður vegna streymisveitna en handritshöfundar fái minna í aðra hönd og séu undir meira álagi. WGA segir að handritshöfundar þátta streymisveitna fái allt að helmingi minna greitt en þeir sem starfa fyrir gömlu sjónvarpsstöðvarnar.
Skemmtiþættir fyrstu fórnarlömbin
AP-fréttastofan segir að áhrifa verkfallsins gæti fyrst í skemmtiþáttum og „Saturday Night Live“. Búist er við að framleiðsla þeirra stöðvist strax. Dragist verkfallið fram á sumar gæti haustdagskrá sjónvarpsstöðva raskast.
Ekki er leyfilegt að gera breytingar á handriti kvikmynda og þátta sem eru þegar í framleiðslu. Í síðasta stóra verkfalli handritshöfunda frá 2007 til 2008 kom þetta verulega niður á gæðum mynda sem voru í framleiðslu. Daniel Craig, enski leikarinn sem leikur James Bond, sagði að Bond-myndinni „Quantum of Solace“ hafi verið flýtt í framleiðslu með þunnu handriti sem ekki mátti svo lagfæra á tökutímanum.
„Ég var þarna að reyna að endurskrifa atriði og ég er alls enginn handritshöfundur,“ sagði Craig um þá reynslu.
Verkföll handritshöfunda hafa dregist á langinn í gegnum tíðina. Það sem hófst árið 2007 stóð yfir í hundrað daga en árið 1988 þögnuðu ritvélarnar í 153 daga.
Til að bæta gráu ofan á svart eru samningar leikstjóra og leikara lausir í júní. Viðræður þeirra við framleiðendur eiga að hefjast í þessum mánuði.