Körfubolti

Steph Curry skaut Stríðs­mönnunum í undan­úr­slit | Miami tók for­ystuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steph Curry fór hamförum í oddaleik Golden State Warriors og Sacramento Kings í gær.
Steph Curry fór hamförum í oddaleik Golden State Warriors og Sacramento Kings í gær. Ezra Shaw/Getty Images

Stephen Curry skoraði hvorki meira né minna en 50 stig fyrir Golden State Warriors er liðið vann 20 stiga sigur gegn Sacramento Kings í oddaleik um sæti í undanúrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta í gærkvöldi, 120-100.

Meistararnir í Golden State áttu í stökustu vandræðum með Kóngana frá Sacramento í einvíginu og áfram gekk illa að hrista þá af sér í leik gærkvöldsins.-

Heimamenn í Sacramento leiddu með einu stigi þegar fyrsta leikhluta lauk og staðan var 58-56, Sacramento Kings í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Gestirnir snéru leiknum þó sér í hag strax í upphafi síðari hálfleiks og leiddu með tíu stigum þegar komið var að lokaleikhlutanum. Heimamönnum tókst ekki að gera atlögu að forskoti meistaranna undir lok leiksins og Golden State Warriors unnu góðan 20 stiga sigur, 120-100.

Eins og áður segir var Stephen Curry langstigahæsti maður vallarins með 50 stig fyrir gestina, en hann tók einnig átta fráköst og gaf sex stoðsendingar. Í liði heimamanna var Domantas Sabonis atkvæðamestur með 22 stig.

Golden State Warriors er því á leið í undanúrslit Vesturdeildarinnar þar sem liðið mætir Los Angeles Lakers.

Þá heldur Miami Heat áfram að koma á óvart í Austurdeildinni. Eftir að hafa komið inn í úrslitakeppnina sem áttunda besta liðið gerði Miami sér lítið fyrir og sló efsta lið Austurdeildarinnar, Milwaukee Bucks úr leik. Miami Heat mætti svo New York Knicks í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum og hafði þar betur, 108-101.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×