Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu, segir í samtali við fréttastofu að stunguáverkar á hinum látna hafi verið fleiri en einn. Til skoðunar sé hvort fleiri komi að málinu. Hann segir ábendingu hafa borist frá vegfaranda sem leiddi til útkalls lögreglu. Ekki er útilokað að einhver hafi orðið vitni að átökunum.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er til skoðunar hvort efni úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu nýtist í þágu rannsóknarinnar.
Mennirnir sagðir á menntaskólaaldri
Fréttastofa RÚV hafði eftir heimildum sínum í hádeginu að fjórir handteknu væru á aldrinum 17 til 19 ára. Grímur vildi ekki staðfesta það í samtali við fréttstofu.
Að sögn Gríms standa yfirheyrslur yfir og í framhaldinu komi í ljós hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Aðspurður segir hann ekkert benda til þess að málið tengist ólgu í undirheimunum síðustu mánuði.

Þá gat hann ekki sagt til um hvort vitað væri um tengsl á milli mannanna og hins látna eða aðdraganda árásarinnar.
„Staðan er þannig að við erum á fyrsta hluta rannsóknarinnar og þetta er allt hluti af því, eitthvað sem við erum með til skoðunar,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu.
Nánar verður fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.