Hin 24 ára gamla Meredith Duxbury er ein skærasta stjarnan á samfélagsmiðlinum TikTok. Hún byrjaði á samfélagsmiðlinum árið 2020 en náði þó ekki vinsældum fyrr en hún fór að sýna frá óvenjulegri förðunarrútínu sinni. Netverjum blöskraði hve mikinn farða hún notar á andlit sitt og var það það sem kom henni á kortið. Í dag er hún með um 18 milljónir fylgjendur á TikTok en um 134 milljónir hafa horft á vinsælasta myndband hennar.
Drekkir andlitinu í farða en útkoman er lýtalaus
Meredith gott sem drekkir andlitinu í þekjandi farða og setur svo gjarnan aðra umferð af þynnri farða yfir. Þessu blandar hún svo út með fingrunum.
„Ég er með mikið af freknum og til þess að hylja þær allar þarf ég að nota mikinn farða,“ útskýrði Meredith í einu TikTok myndbandinu. Þá segist hún nota fingurna frekar en bursta eða förðunarsvamp vegna þess að líkamshitinn frá höndunum bræði farðann sem gerir það að verkum að hann blandast betur við húðina.
Mörgum netverjum þykir aðferðin sláandi en Meredith segir áhorfendum að treysta ferlinu. Hún klárar förðunina með hyljara, púðri, skyggingu, kinnalit og augnförðun og kemur útkoman skemmtilega á óvart. Niðurstaðan er lýtalaus.
Stjörnurnar prófa aðferðina
Nú hefur aðferð Meredith orðið að tískubylgju á TikTok. Netverjar keppast við að endurskapa förðunina og hafa rúmlega 100 milljónir manns horft á myndbönd undir myllumerkinu #meredithfoundationshallange.
Embla Wigum, ein skærasta TikTok-stjarna okkar Íslendinga, er ein af þeim sem hefur prófað aðferðina og var hún nokkuð hrifin. „Ég er ekki að hata þetta. Húðin er alveg lýtalaus,“ sagði hún.
Aðferðin virðist einnig hafa vakið forvitni Mario Dedivanovic, förðunarfræðings Kim Kardashian, sem prófaði aðferðina og sýndi frá því á TikTok. Þá hafa stjörnur á borð við Selenu Gomez einnig hoppað á vagninn og virðist útkoman hafa komið henni skemmtilega á óvart. Aðferðin er því gott dæmi um það að maður ætti ekki að dæma fyrr en maður hefur prófað.