Í skýrslu sem gerð var um rannsóknina kemur fram að faraldur Covid-19 hafi haft mikil áhrif á kókaínmarkaðinn. Neysla dróst saman með lokun skemmtistaða um heim allan og framleiðendur áttu þar að auki erfiðara með að dreifa fíkniefninu um heiminn vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hafði á samgöngur.
Áhrif Covid á kókaínmarkaðinn virðast þó hafa haft lítil áhrif til lengri tíma séð. Eins og áður segir hefur framleiðslan aldrei verið meiri og virðist sem það sama eigi við eftirspurn og neyslu á heimsvísu.
Lögregluþjónar og aðrir löggæslumenn í heiminum hafa þó lagt hald á mun meira kókaín en áður.

Í frétt BBC um skýrsluna kemur fram að glæpagengi hafi í auknu mæli notast við hefðbundnar póstsendingar fyrir kókaín á meðan á faraldrinum stóð og sérstök aukning hafi greinst á þessu í Vesturhluta-Afríku.
Stærstu markaðir kókaínframleiðenda eru enn Norður-Ameríka og Evrópa. Þrátt fyrir aukið umfang kókaínsölu í Afríku og Asíu er það enn talið vera takmarkað en glæpagengi hafa tækifæri á að auka söluna þar.