Skoðanakannanir benda til þess að Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, sé líklegastur til þess að veita Trump keppni um útnefningu repúblikana fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember árið 2024. DeSantis hefur enn ekki lýst formlega yfir framboði en fastlega er gert ráð fyrir að hann geri það á næstunni.
Fram að þessu hefur DeSantis vikið sér undan að úttala sig um utanríkismál, þar á meðal innrás Rússa í Úkraínu. Hann svaraði þó spurningum um málefnið í fyrsta skipti með afgerandi hætti í þætti Tuckers Carlson, helsta þáttastjórnanda Fox News-sjónvarpsstöðvarinnar, í gær. Carlson er sjálfur andstæðingur þess að Bandaríkin leggi Úkraínumönnum lið.
„Þó að Bandaríkin hafi mörg brýn þjóðaröryggishagsmunamál [...] þá er það ekki eitt af þeim að blanda okkur frekar í deilu Úkraínu og Rússlands um landsvæði,“ sagði í skriflegu svari DeSantis við spurningum Carlson, að því er kemur fram í frétt Washington Post.
Endurspeglar klofning innan Repúblikanaflokksins
Skoðun DeSantis endurómar þá sem Trump hefur þegar lýst. Trump sagði það ekki hagsmuni Bandaríkjanna að stöðva Rússa í sínum svörum til Carlsons. Hann hefur áður sagt að hann leyfði Rússum að sölsa undir sig úkraínskt landsvæði ef samið yrði um frið.
Í forsetatíð sinni var Trump kærður fyrir embættisbrot þegar hann reyndi að þröngva Volodýmýr Selenskíj, forseta Úkraínu, til þess að hjálpa sér að koma óorði á Joe Biden. Það gerði hann með því að stöðva tímabundið hernaðaraðstoð sem Bandaríkjaþing hafði þegar samþykkt.
Afstaða bæði DeSantis og Trump er í andstöðu við leiðtoga Repúblikanaflokksins á Bandaríkjaþingi. Mitch McConnell, leiðtogi flokksins í öldungadeildinni, sagði nýlega að fullvalda Úkraína væri þjóðaröryggismál fyrir Bandaríkin.
Ágreiningurinn þykir endurspegla vaxandi klofning innan raða Repúblikanaflokksins, á milli hefðbundinna íhaldsmanna sem eru andsnúnir rússneskum hernaðarumsvifum annars vegar og hins vegar nýrrar kynslóðar þingmanna yst á hægri jaðri flokksins sem eru andsnúnir úkraínskum stjórnvöldum og dást jafnvel að Vladímír Pútín Rússlandsforseta.

Eins og ef Bandaríkin réðust inn í Kanada
Sumir þingmenn repúblikana gagnrýndu þó DeSantis fyrir að lýsa innrásinni sem einhvers konar landamæradeilu í dag, þar á meðal Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður flokksins frá Flórída og varaformaður leyniþjónustunefndar þingdeildarinnar..
„Þetta er ekki frekar deila um landsvæði en ef Bandaríkin ákvæðu að þau vildu ráðast inn í Kanada eða taka yfir Bahamaeyjar. Þetta er innrás,“ sagði Rubio í útvarpsviðtali.
Í sama streng tók Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu og dyggur stuðningsmaður Trumps. Sagði hann margt hafa farið fram hjá flokkssystkinum sínum ef þau teldu að tilefnislausa og villimannslega innrás Rússa í Úkraínu ekki þjóðaröryggismál Bandaríkjanna.