Fótbolti

Jóhann Berg spilaði í rúman klukkutíma í enn einum sigrinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jóhann Berg var í byrjunarliði Burnley í dag.
Jóhann Berg var í byrjunarliði Burnley í dag. Vísir/Getty

Burnley stefnir hraðbyri á sæti í ensku úrvalsdeildinni en liðið vann enn einn sigurinn í ensku Championship-deildinni í dag. Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley.

Burnley hefur haft mikla yfirburði í Championship-deildinni í vetur og virðist fátt geta komið í veg fyrir að liðið leiki á meðal þeirra bestu á næsta tímabili. Fyrir leikinn gegn Wigan í dag var liðið með tíu stiga forskot á Sheffield United á toppi deildarinnar en tvö efstu liðin fara beint upp í úrvalsdeild.

Eins og áður segir var Jóhann Berg í byrjunarliði Burnley í dag líkt og hann hefur verið undanfarnar vikur. Nathan Tella kom heimamönnum í Burnley yfir á 14.mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Anass Zaroury og Tella bætti öðru marki við strax í upphafi síðari hálfleiks.

Jóhann Berg var tekinn af velli á 63. mínútu en Lyle Foster innsiglaði sigur Burnley á 75.mínútu með þriðja marki liðsins.

Lokatölur 3-0 og Burnley er nú með þrettán stiga forskot á toppnum þar sem Sheffield United, sem situr í öðru sætinu, tapaði á heimavelli gegn Luton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×