Grunnt hefur verið á því góða á milli Írans og Sádi-Arabíu undanfarin ár. Íranar eru meðal annars taldir hafa staðið að árás á olíuframleiðslu í Sádí-Arabíu árið 2019. Ríkin styðja hvor sína fylkinguna í stríðinu í Jemen.
Viðræður ríkjanna fóru fram í Beijing. Samkomumlag þeirra kveður á um að ríkin virði fullveldi og skipti sér ekki af innanríkismálum hvort annars.
Samkomulagi ríkjanna er lýst sem meiriháttar sigri fyrir kínversk stjórnvöld í utanríkismálum. Bæði ríkin þökkuðu gestgjöfunum sérstaklega í sameiginlegri yfirlýsingu sinni. AP-fréttastofan segir að Persaflóaríki líti nú svo á að áhrif Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum fari smám saman dvínandi. Xi Jingping, forseti Kína, hefur undanfarið fundað með leiðtogum olíuríkja við Persaflóa sem Kínverjar reiða sig á til orkukaupa.
Talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins segir Reuters-fréttastofunni að Bandaríkjastjórn viti af samkomulaginu og að hún fagni öllum tilraunum til þess að binda enda á stríðið í Jemen og draga úr spennu í Miðausturlöndum.