Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt beint frá Akranesi þar sem verið var að landa 2.300 tonnum úr Víkingi AK. Loðnan veiddist í norðanverðum Faxaflóa upp undir Arnarstapa og var henni dælt inn í hrognavinnslu Brims þar sem unninn er úr henni kavíar, langverðmætasta afurðin.
Á bryggjunni var Albert Sveinsson skipstjóri spurður um hvernig vertíðin hefði gengið.
„Þetta hefur bara verið frábær veiði og mikið af loðnu.“

-Og nú er hún að ná hámarki?
„Hún er að ná hámarki. Kominn hundrað prósent þroski og styttist í hrygningu á þessari loðnu sem við erum að veiða núna.“
-Hvað eigið þið marga daga eftir?
„Það er ómögulegt að segja. Það er allavega góð veiði ennþá. Ég var að tala við þá á miðunum rétt áðan og það var mokveiði í dag út af Reykjanesi.“

-Þannig að núna er loðnuævintýrið í hámarki?
„Það er í hámarki.“
-Farmurinn sem þið eruð að koma með að landi, kannski 150 milljóna króna virði?
„Það gæti verið eitthvað svoleiðis. Ef það kemur mikið af hrognum og borgað þokkalegt verð, þá gæti það verið það.“

-Og miðað við að það væru kannski landanir tíu skipa á dag, þetta eru kannski einn til tveir milljarðar sem eru að berast á land á hverjum degi?
„Já, það gerist mikið á stuttum tíma,“ svarar Albert skipstjóri.

Já, loðnuflotinn er þessa dagana að koma með eins til tveggja milljarða króna verðmæti að landi á hverjum sólarhring, það er að segja áður en loðnan hrygnir og drepst. Þetta er því gríðarleg spenna næstu daga.
Flotinn gæti átt eina viku eftir, kannski tvær vikur, en lokaspretturinn ræðst ekki síst af því hvort líkleg vestanganga muni skila vænlegum afla. Það virðist þó stefna í að þetta verði vart minna en 40 til 50 milljarða króna loðnuvertíð að þessu sinni.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: