Körfubolti

Luka og Kyrie báðir með 40 stig: „Varð að fá að vera með í partýinu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving og Luka Doncic skoruðu þrettán þriggja stiga körfur saman í nótt.
Kyrie Irving og Luka Doncic skoruðu þrettán þriggja stiga körfur saman í nótt. AP/Tony Gutierrez

Luka Doncic og Kyrie Irving sýndu í nótt að þeir geta farið báðir á kostum í sama leik en margir höfðu áhyggjur af því hvort þeir gætu náð sínu besta fram hlið við hlið í NBA-deildinni í körfubolta.

Luka og Kyrie skoruðu báðir fjörutíu stig í nótt þegar Dallas Mavericks vann 133-126 stig á Philadelphia 76ers í venjulegum leiktíma.

Doncic var með 42 stig og 12 stoðsendingar en Irving skoraði 40 stig og af 6 stoðsendingar. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Dallas Mavericks sem liðsfélagar skora báðir yfir fjörutíu stig.

Þetta var aðeins annar sigur Dallas liðsins í sex leikjum með þá báða innan borðs en sýndi hvað er erfitt að eiga við þessa tvo frábæru leikmenn inn á vellinum á sama tíma.

„Eins og ég sagði þegar ég var hérna síðast varð ég að fá að vera með í partýinu,“ sagði Kyrie Irving en hann hafði talað um pressuna á að standa sig eftir leikinn á undan.

„Luka var tilbúinn í partýið. Ég var tilbúinn í partýið í kvöld og þetta var einn af þessum leikjum þar sem við náðum okkur báðir á flug. Ég er bara þakklátur að vinnan sé að skila sér,“ sagði Irving.

Doncic passaði upp á að Kyrie fengi að vera með því átta af tólf stoðsendingum hans voru á Kyrie. Luka hafði samtals aðeins gefið þrjár stoðsendingar á Kyrie í fyrstu fimm leikjum þeirra saman.

Irving hitti úr 15 af 22 skotum sínum í leiknum þar af 6 af 8 fyrir utan þriggja stiga línuna. Doncic skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta og var kominn með 25 stig í hálfleik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×