Hann lést af völdum höfuðáverka í Bretlandi, en hann hafði stundað fótbolta og nám í Brooke House College-fótboltaakademíunni í Leicester frá því á síðasta ári. Ekki er tekið fram hvernig andlátið bar að.
Duangpetch Promthep, eða Dom eins og hann var kallaður, var fyrirliði fótboltaliðsins sem festist djúpt í Tham Luan-hellakerfi í Chang Rai-héraði þann 23. júní 2018 eftir að vatnsyfirborð í hellunum hækkaði skyndilega.
Björgunaraðgerðir stóðu í um tvær vikur og völdu heimsathygli. Bjarga tókst öllum drengjunum og þjálfara þeirra, en einn kafaranna lést við björgunaraðgerðir. Um hundrað taílenskir og erlendir kafarar tóku þátt í björgunaraðgerðunum.

BBC segir frá því að móðir Doms hafi greint munkum í Wat Doi Wao-hofinu í heimaborg fjölskyldunnar, Chiang Rai, frá andlátinu og þeir minnst hans á samfélagsmiðlum. Gamlir félagar hans í fótboltaliðinu, Villisvínunum, hafa sömuleiðis gert slíkt hið sama. Þá minnstust góðgerðarsamtökin Zico, sem styrktu á sínum tíma Dom að komast að í fótboltaakademíunni í Leicester, hans á Facebook-síðu sinni í morgun.
Dom var þrettán ára þegar liðið festist í hellinum og voru félagar hans í liðinu á aldinum ellefu til sextán ára.
Tham Luang er fjórða stærsta hellakerfi Taílands og einn að eftirlætisáfangastöðum liðsins.