Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Klukkan hringir sjö, þá kveiki ég á kaffivélinni og kúri yfirleitt til 7.40. Í svartasta skammdeginu á ég svakalega erfitt með að vakna. Þessu er öðruvísi farið þegar fer að birta!“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég fæ mér dýrðlegan kaffibolla úr Rocket kaffivélinni okkar, sem ég gæti ekki verið án og svo tökum við Lotta morgunhringinn, með boltann og kaffibollann!“
Hvaða markmið hefur þú sett þér sem þú eftir á getur sagt að hafi verið fyndið, vonlaust eða mjög hallærislegt?
Þetta verður voða leiðinlegt svar hjá mér, ég er mjög einbeitt og ákveðin og hef alltaf náð þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Þau hafa verið náms- og starfstengd og gengið upp. Af því er ég stolt.
Hins vegar hef ég átt mér alls konar vonir og óraunhæfa drauma sem ekki hafa ræst, eins og að verða „skautadrotting“ eftir að horfa á vertarólympíukleika í kringum 1980 og mig langaði líka mikið að fljúga eins og Súperman. Það gekk ekki.
Ég hefði kannski átt að setja mér það markmið að læra á hljóðfæri, ég kann ekki á neitt nema blokkflautu og finnst það alveg ferlegt!“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Það er í mörg horn að líta í starfi leikhússtjóra. Það er allt á fullu í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Við höfum nýlokið fjögurra frumsýninga törn og tvær nýjar eru í burðarliðnum.
Aðsókn er frábær og uppselt langt fram í tímann á sýningar eins og 9 líf, Mátulega og Emil í Kattholti. Samstarf Borgarleikhússins og Jómfrúarinnar hefur gengið fádæma vel og mikið líf í húsinu en um hverja helgi tökum við á móti um 3660 gestum.
Við erum í óða önn við að stilla upp næsta leikári. Það er ákaflega skemmtileg og skapandi vinna en jafnframt mikið púsl að láta allt ganga upp.
Vikan fer í að halda utan um frumsýningar næstu helgar, „Beinar útsendingar“ í Umbúðalausu og „Góða ferð inn í gömul sár“ eftir Evu Rún Snorradóttur en hún var leikskáld Borgarleikhússins 2020-2021.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég er heppin með að vera öguð og skipulögð að eðlisfari. Ég er með ágætan innbyggðan tímastilli og hitamæli. Verkefni mín eru fjölbreytt og dagarnir ólíkir.
Ætli ég vaði ekki bara í verkefnin og klári þau.
Það held ég að sé eina rétta svarið.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Þegar ég er ekki í kvöldvinnutörn í leikhúsinu reyni að fara eins snemma í háttinn og ég get. Mér finnst æðislegt að vera komin upp í milli níu og tíu. Þá næ ég að lesa og láta hugann reika fyrir svefninn. Og svo sef ég eins og steinn!“