Talsmaður Úkraínuhers segir að sex rússneskar sprengjuþotur sem geta skotið eldflaugum hafi tekið á loft í morgun og standi að árásunum og hafa loftvarnarflautur verið þeyttar um allt land, meðal annars í höfuðborginni Kænugarði að sögn Óskars Hallgrímssonar sem búsettur er í borginni.
Fólk hefur verið hvatt til að leita sér skjóls á meðan loftvarnir Úkraínu reyna að skjóta flaugarnar niður og segir talsmaður Úkraínuforseta að nú þegar hafi nokkrar flauganna verið skotnar niður. Þá hefur rafmagn verið tekið af stórum svæðum til öryggis.
Í borginni Vinnytsia hafa að minnsta kosti sex sprengingar heyrst en óljóst er hvort þar sé um að ræða flaugar sem hafi hæft skotmörk sín eða hvort loftvarnir hafi náð að granda flaugunum.