„Þessi ákvörðun ber þess vitni að Bandaríkin og Evrópa munu halda áfram stuðningi sínum við Úkraínu. Forsetinn og aðrir leiðtogar, þar á meðal innan G7 ríkjanna, hafa ítrekað að stuðningurinn verði til staðar svo lengi sem þörf krefur,“ segir í tilkynningu frá stjórnvöldum Bandaríkjanna.
Fyrr í dag ákváðu Þjóðverjar að senda 14 Leopard skriðdreka til Úkraínu og verða úkraínskir hermenn þjálfaðir á skriðdrekana í Þýskalandi. Ráðamenn í Póllandi, Finnlandi, Tékklandi og Slóvakíu eru einnig tilbúnir til að senda Úkraínumönnum hlébarða-skriðdreka. Bretar höfðu þar að auki tilkynnt að þeir ætli að gefa Úkraínumönnum fjórtán Challenger 2 skriðdreka.
Úkraínumenn binda vonir við að liðsauki skriðdrekanna muni reynast þeim vel í vörn gegn Rússum en þeir búast við nýrri árás Rússa í náinni framtíð. Bandarísku Abrams skriðdrekarnir þykja að vísu óhentugri, þar sem rekstur þeirra er töluvert flóknari og umfangsmeiri en rekstur Leopard skriðdreka.