Stig Nygård, sérfræðingur TV 2 í Noregi um handbolta, hefur líkt og síðustu ár birt lista yfir 50 bestu leikmenn heims að hans mati. Eins og Nygård bendir á er verkefnið ærið og hann segir í það minnsta 30 leikmenn til viðbótar allt eins eiga heima á listanum.
Ómar Ingi Magnússon er efstur Íslendinga á listanum en hann er sá fjórði besti í heiminum í dag að mati Nygård, sem tekur fram að Ómar hafi síðustu tvö ár verið valinn íþróttamaður ársins á Íslandi.
Da er topp 50 listen klar. De 50 beste håndballspillerne i verden sett med mine øyne. https://t.co/NeTxXJTDCa
— Stig Aa. Nygård (@StigAaNygard) January 19, 2023
Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem líkt og Ómar hefur farið á kostum með Magdeburg í Þýskalandi í vetur, er í 14. sæti á listanum.
Aron Pálmarsson, sem lengi þótti meðal allra bestu leikmanna heims, er núna í 35. sæti. Nygård bendir á að Aron, sem sé einn merkasti íþróttamaður Íslands, ljúki brátt hringnum eftir afar farsælan atvinnumannsferil og snúi heim til FH í sumar.
Bjarki Már Elísson er svo fjórði Íslendingurinn á listanum en hann varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar 2020-21 og aðeins átta mörkum frá því að endurtaka leikinn í fyrra, áður en hann fór svo frá Lemgo til ungverska stórliðsins Veszprém. Bjarki er svo kominn í baráttuna um markakóngstitilinn á yfirstandandi HM.
Efstur á listanum er Frakkinn Dika Mem sem leikur með Barcelona, en í næstefsta sæti er maðurinn sem Íslendingar þurfa að eiga við í kvöld – skærasta stjarna Svía – Jim Gottfridsson. Í þriðja sæti er svo Spánverjinn Alex Dujshebaev sem ekki á langt að sækja hæfileikana.