Áramótaheit geta verið af ýmsu tagi en Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs segir marga líta á nýtt ár sem tækifæri til að takast á við vandamál tengd neyslu.
Um 600 manns eru á biðlista sem er svipað og undanfarna mánuði, en Valgerður segir flesta ekki þurfa að bíða mjög lengi eftir plássi. Margir eru hikandi við að leita sér aðstoðar þar sem þeir telja vandamálið ekki nægilega stórt, en að sögn Valgerðar er rétti tíminn til að leita sér hjálpar einmitt þegar hugmyndin kviknar um að mögulega sé vandamál í uppsiglingu.
„Stærsti hópurinn er einmitt sá sem er um það bil að missa af, missa af í skólanum eða vinnunni, eða í fjölskyldunni vegna neyslunnar. Meðan þeir eru fúnkerandi er best að grípa inn í, akkúrat við það tækifæri.“
Fólk illa á sig komið vegna drykkju
Sjúklingar á Vogi leita þangað vegna ýmiskonar fíknar en áfengisvandamál eru þó lang algengust. Valgerður segir áfengisneyslu fara sívaxandi og íslendingar drekki almennt mjög mikið.
„Það hefur miklar afleiðingar. Þeir sjá það til dæmis lifralæknar að skorpulifur hefur aukist mjög mikið á Íslandi og við sjáum að fólk er bara illa á sig komið af mikilli áfengisdrykkju hérna.“

Valgerður segir hræðilegar afleiðingar geta hlotist af því að vera með virkan fíknisjúkdóm. Hún ítrekar skilaboðin um að bíða ekki of lengi með að leita sér hjálpar.
„Ég vil hvetja fólk sem hefur verið að hugsa sig um í einhvern tíma að láta til skarar skríða núna, 2023 í byrjun árs. Taka á málunum. Við tökum vel á öllum sem leita til okkar.“