Körfubolti

Risasigrar hjá Haukum og Val

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úr leik Hauka og Vals.
Úr leik Hauka og Vals. Vísir/Hulda Margrét

Haukar og Valur unnu bæði stórsigra í leikjum liðanna í Subway-deild kvenna í körfuknattleik. Haukar unnu ÍR 99-52 í Ólafssal og á sama tíma vann Valur sigur á Breiðablik 102-59 á heimavelli sínum.

Fyrir kvöldið var búist við öruggum sigri Hauka og Vals sem voru í öðru og þriðja sæti Subway-deildarinnar á meðan Breiðablik og ÍR voru í tveimur neðstu sætunum.

Í Ólafssal voru Haukar strax komnir með sautján stiga forystu gegn ÍR eftir fyrsta leikhlutann. Þær náðu mest fimmtíu stigaa forskoti í leiknum sem aldrei var spennandi.

Sólrún Inga Gísladóttir var stigahæst með 25 stig fyrir Hauka og Eva Margrét Kristjánsdóttir kom næst með 22 stig en hún tók einnig 13 fráköst.

Hjá ÍR skoraði Greeta Uprus 14 stig og Sólrún Sæmundsdóttir 12.

Svipað var uppi á teningunum að Hlíðarenda þar sem Valur tók á móti Breiðablik. Valur leiddi 55-27 í hálfleik og vann 102-59 sigur að lokum.

Hallveig Jónsdóttir var stigahæst hjá Val með 16 stig en Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir skoruðu 15 stig. Sanja Orozovic skoraði 17 stig fyrir Blika.

Haukar jafna Keflvíkinga að stigum á toppnum með sigrinum en Keflavík leikur þessa stundina við Njarðvík á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×